
Þegar umræða um heilbrigðismál og lækna er farin að snúast um bráðabirgðalausnir í útflutningsgámum á sjálfri Landspítalalóðinni, á sama tíma og hundruð lækna flýja sjálfir nauðviljugir landið til að geta staðið í skilum með námslánin sín og skaffað húsaskjól fyrir fjölskylduna, er mikilvægt að staldra aðeins við og horfa um öxl. Hvað þurfa ópin annars að vera hávær í heilbrigðiskerfinu öllu og greinar lækna í blöðunum margar til að stjórnvöld skilji vandann og tekur áratugi að bæta? Með hverjum deginum sem við eru að sökkva dýpra í ráðaleysið og glundroðann sem skapast hefur t.d. á sjálfu höfuðborgarsvæðinu. Lyfjamálin í algerum ólestri, heilsugæslan, grunnþjónusta heimilislækna að hrynja og sumar heilsugæslustöðvar vart mannaðar læknum lengur. Erfitt er eins orðið að halda uppi eðlilegri læknisþjónustu á mörgum sviðum Landspítala-Háskólasjúkrahúss vegna læknisskorts og þar sem mjög alvarlegt ástand hefur oft skapast, m.a. á lyflæknisdeildum, krabbameinsdeildum og á bráðamóttökunni. Á staði þangað sem leiðir okkar margra liggja í mestu neyð lífsins.
Sjálfsagt mega margar aðrar starfsgreinar í opinberri þjónustu kvarta, t.d. hjúkrunarfræðingar og kennarar. Málið snýr þó einfaldlega að mér þannig sem íslenskum lækni, að ég tel óvíða í hinum vestræna heimi sé læknismenntunin verr metin í dag og á Íslandi og hvergi er ungum sérfræðilæknum og jafnvel unglæknum gert jafn erfitt að framfleyta sér og fjölskyldu sinni og hér á landi. Þeir fá oft tæplega greiðslumat til íbúðakaupa í dag vegna hárra námslána (sem geta numið allt að 20 milljónum króna) og þar sem afborganir námslána eru jafnframt tekjutengdar án nokkurs skattaafslátts, borga þess í stað hátekjuskatt vegna mikillar vinnu. Fæstir sérfræðilæknar koma enda heim að sérnámi loknu og margir unglæknar eru þegar farnir að leggja á ráðin með vinnu erlendis um leið og þeir geta strax eftir kandídatsárið (starfsnámið), jafnvel plön löngu áður en 6 ára skólanámi þeirra lýkur. Til landa þar sem kjörin eru betri og skilningur á gildi góðrar læknismenntunar margfalt meiri.