
Fyrir þremur árum skrifaði ég pistil sem ég kallaði Háleitisbrautin og sem mig langar að endurskrifa nú í tilefni af „Óheillabrautinni“ sem við nú göngum í niðurrifi heilbrigðisþjónustunnar og sem hefur orðið að víkja sl. áratugi fyrir annarri verðmætasköpun en sem tengist heilsunni. Heilsuviðmið sem eru gjaldfallin í samanburði við t.d. veraldlegar eignir ríkisins og kapphlaupi ríkisstjórnarinnar að borga ríkisskuldir niður á sem skemmstum tíma, hvað sem það kostar.
Á leið minni í vinnuna á Slysó, eins og Slysa- og bráðamóttakan í Fossvogi er oft kölluð, keyri ég yfirleitt eins og leið liggur vestur Vesturlandsveginn og síðan suður Háaleitisbrautina. Brautina mína þann daginn, en sem er leið flestra annarra í öðrum tilgangi. Í mínum huga er sjálf Háaleitisbrautin sérstök braut væntinga og endurminninga. Fyrri reynslu og að vita aldrei hvað vaktin ber í skauti sínu. Smá kvíði í bland við ósk um góða vakt. Á heimleiðinni varpar maður síðan öndinni aðeins léttar. Með hugann við allt sem gerðist á vaktinni og viðfang félaganna sem tóku við henni. Á braut sem er samt ósköp venjuleg gata í Reykjavík og fáir tengja umræðunni um heilbrigðismálin. Ekkert frekar en almenningur gerir í umræðunni um stöðu heilbrigðismála yfirhöfuð og allt það sem að baki býr og tekið hefur áratugi að byggja upp. Fyrir lágmarks heilbrigðisöryggi og gott aðgengi okkar allra.
Í áratugi hef ég tekið vaktir á Slysó jafnhliða starf mínu sem heimilislæknir, gömlu deildinni minni sem aldrei sefur. Ég man reyndar fyrst eftir mér þar í vinnu á þriðja ári í læknisfræðinni 1981, fyrir 33 árum síðan, sem þá hét Slysadeild Borgarspítala. Á gamla horninu þegar hún var aðeins þrjú herbergi og eins og lítið heimili. Síðan hefur hún stækkað hundraðfalt. Þangað sem flestir leita sem þurfa á mestu hjálpinni að halda.
Á Slysa- og bráðamóttökunni eru allir jafnir með tilliti til þjónustu og þar sem jafnvel bregður fyrir smá brosi þeirra sem fá hjálp í mestu martröð lífs síns. Flestum kannski nema þeim sem koma útúrdópaðir eða eru ofurölvi og þar sem ofbeldið hefur tekið völdin. Staður sem er þá stundum eins og vígvöllur og allt getur gerst. Jafnvel árásir á starfsfólk með smitað blóð og hráka að vopni. Þar sem við þurfum stundum að nota grímur og hlífðargleraugu eins og þar sem stríðsástand ríkir.
Slysa- og bráðamóttakan er líka ákveðin spegilmynd af samfélagi okkar, nema hvað helgidagarnir eru oft hversdagsdagar og hversdagsdagar helgidagar. Álagið er margfalt meira á deildinni sé tekið mið af íbúafjölda, samanborið við nágranalöndin og þar sem heilsugæslan hefur verið betur byggð upp en hún er hér á höfuðborgarsvæðinu. Deild þar sem púlsinn slær hraðar en á flestum öðrum deildum og alltaf er meira en nóg að gera. Á heimleiðinni, norðurleiðinni upp Háaleitisbrautina blasir Esjan aftur við og púlsinn hægist. Þegar farið er frá þeim stað sem við viljum samt öll vita af þegar mest á reynir. Sannarlega kirkjan mín og hjarta þann daginn. Á stað þar sem sjálfur þjóðarpúlsinn slær og ég á stundum líka heima.
Það er á Háaleitisbrautinni sem ég er hvað best meðvitaður um mikilvægi starfs míns. Á braut vonar, reynslu og endurminninga. Breytileg eins og nótt og dagur, vetur og sumar. Enginn veit heldur hvað átt hefur fyrr en misst hefur segir gamallt og gott máltæki og sem er mér oft ofarlega í huga á þeirri leið, að heiman eða heim. Aldrei hefur útlit í mönnunarmálum lækna verið jafn dökkt og þessa daganna. Mikill atgerfisflótti hefur átt sér þegar stað úr öllum sérgreinum læknisfræðinnar og nú blasa við víðtækar verkfallsaðgerðir vegna afleiddra grunnkjara lækna og sem enginn vilji er að semja um. Sannkölluð óheillabraut fyrir alla þjóðina.